Einkalífið
Einkalífið eru þættir á Vísi þar sem rætt er við fólk sem skarar fram úr á sínu sviði. Hvort sem um er að ræða leikara, tónlistarfólk, afreksfólk í íþróttum, samfélagsmiðlastjörnur eða stjórnmálamenn, þá eru öll velkomin. Þáttastjórnendur eru Dóra Júlía Agnarsdóttir og Oddur Ævar Gunnarsson.
Episodes

7 days ago
7 days ago
Brynjar Karl Sigurðsson körfuknattleiksþjálfari Aþenu er einn athyglisverðasti þjálfari landsins. Hann ræðir æskuárin í Breiðholtinu, frelsissviptingu og árin í körfuboltanum þar sem hann varð ungur fyrir kynferðislegri áreitni. Brynjar ræðir líka árin í Bandaríkjunum, ævintýralega velgengni Sideline Sports og áhrifin sem barátta hans hefur haft á fjölskyldu hans.

Thursday Feb 20, 2025
Thursday Feb 20, 2025
Sonja Valdín, jafnan þekkt sem Sonja Story, skaust upp á stjörnuhimininn árið 2016 sem ein stærsta Snapchat stjarna landsins. Hún gerði garðinn frægan með Áttunni, var með tugþúsund fylgjenda, gaf út gríðarlega vinsæl lög og lék í bíómynd. Svo eyddi hún öllum samfélagsmiðlum og dró sig algjörlega í hlé. Sonja er viðmælandi í Einkalífinu sem er jafnframt hennar fyrsta viðtal í fjögur ár. Þar ræðir hún æskuna, ferilinn, samfélagsmiðlafíkn, kvíða, nettröll, að læra að setja mörk, hlúa að andlegri heilsu, hafa gaman að lífinu og vera í dag slétt sama hvað fólki finnst.

Monday Oct 28, 2024
Monday Oct 28, 2024
Leikkonan og grínistinn Birna Rún Eiríksdóttir er viðmælandi í Einkalífinu. Birna Rún hefur komið víða að í leiklistinni, er einn vinsælasti veislustjóri landsins, er óhrædd við að berskjalda sig og standa uppi á sviði fyrir framan hóp fólks og segja brandara og tekur lífinu ekki of alvarlega. Hún talar hér hispurslaust um sjálfa sig, ADHD-ið, ferilinn, að hafa eignast barn átján ára, að bæta sambandið við sjálfa sig, ástina, lífið og margt fleira.

Monday Oct 14, 2024
Monday Oct 14, 2024
Guðrún Svava Egilsdóttir, betur þekkt sem Gugga í gúmmíbát, skaust nýverið upp á stjörnuhimininn og er rísandi stjarna í samfélagsmiðlaheiminum. Gugga, eins og hún er alltaf kölluð, leggur mikið upp úr jákvæðu hugarfari, er dugleg að hvetja aðrar stelpur áfram og fer sínar eigin leiðir óháð áliti annarra. Hún er viðmælandi í Einkalífinu þar sem hún ræðir vegferð sína, erfið áföll, að fagna líkama sínum, brjóstamyndina á plötuumslagi ClubDub, útvarpið, fyrsta giggið sem var á stóra sviðinu á Þjóðhátíð, að vilja ekki vera fyrirmynd og einfaldlega fá að hafa gaman að lífinu.

Thursday Sep 26, 2024
Thursday Sep 26, 2024
Stefán Einar Stefánsson fjölmiðlamaður og fyrrverandi verkalýðsforingi er gestur Einkalífsins að þessu sinni. Hann segir frá uppvaxtarárunum úti á landi og ákvörðun sinni um að fara í guðfræði. Hann segir líka frá tíma sínum í VR, óvæginni umfjöllun um eiginkonu hans og ástæður þess að hann fer gjarnan mikinn í opinberri umræðu þar sem hann hefur verið uppnefndur „siðlausi siðfræðingurinn.“ Stefán segist gefa lítið fyrir slík uppnefni og svarar því líka hvort hann geti hugsað sér að bjóða sig fram til Alþingis svo fátt eitt sé nefnt.

Thursday Sep 19, 2024
Thursday Sep 19, 2024
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir hefur verið á lista BBC yfir áhrifamestu konur Bretlands, mætt í sjónvarpsviðtöl til stærstu sjónvarpsstöðva í heimi og vakið athygli fyrir skelegga mannréttindabaráttu sína fyrir hönd hinsegin samfélagsins undanfarin ár. Ugla er viðmælandi í Einkalífinu og ræðir þar æskuna í sveitinni, hinseginleikann, ástina, ákvörðunina um að flytja til Bretlands og hvernig það var að flytja aftur heim.

Thursday Sep 05, 2024
Thursday Sep 05, 2024
Ingólfur Valur Þrastarson byrjaði á OnlyFans í Covid eftir að hafa misst vinnuna. Hann segir að þar skipti samtöl um mörk og virðingu megin máli og sér fyrir sér að halda áfram þar um ókomna tíð. Ingólfur Valur er viðmælandi í Einkalífinu þar sem hann ræðir meðal annars þetta og sömuleiðis barnæskuna, erfið unglingsár, föðurhlutverkið, hugmyndir annarra um skömm, samfélagsmiðla, baráttumál á samfélagsmiðlum og margt fleira.

Thursday Jun 06, 2024
Thursday Jun 06, 2024
Ofurhlauparinn og nýbakaði Íslandsmeistarinn Mari Järsk á að baki sér viðburðaríka ævi sem er sannarlega ekki áfallalaus en hún tileinkar sér mikið æðruleysi og jákvætt hugarfar. Mari er viðmælandi í Einkalífinu þar sem hún ræðir um ástina, æskuna, hlaupin, nýjasta metið, hugarfarið, ómetanlega vináttu, lærdóm frá lífinu og svo margt fleira.

Thursday May 09, 2024
Thursday May 09, 2024
Frosti Logason fjölmiðlamaður er gestur Einkalífsins að þessu sinni og segir frá tímanum þar sem fyrrverandi kærasta hans steig fram í viðtali og sakaði hann um hótanir og andlegt ofbeldi. Hann segir frá tíma sínum á sjónum og stofnun eigin miðils, Brotkasts. Frosti ræðir umfjöllun sína um Eddu Falak og segist ekki hafa haft hana á heilanum. Hann ræðir líka fjölskyldulífið og væntanlega endurkomu Mínus.

Thursday Apr 25, 2024
Thursday Apr 25, 2024
Kristrún Frostadóttir er intróvert að eðlisfari sem var dregin út úr skelinni þegar foreldrar hennar fluttu til Bretlands. Hún ræðir æskuna í Fossvogi og spænskuskólann í San Sebastián þar sem hún kynntist fyrstu ástinni sem býr nú í Íran. Hún ræðir lífið á þingi og hvernig það fer saman að ala upp ung börn á meðan hún reisir Samfylkinguna upp úr öskustónni.